Lífshlaup
Þorkell Sigurbjörnsson (16. júlí 1938 – 30. janúar 2013) er eitt af höfuðtónskáldum Íslands. Verk hans telja vel á fjórða hundraðið og hafa mörg þeirra verið hljóðrituð og gefin út. Verkasafn Þorkels er afar fjölbreytt en hann samdi hljómsveitarverk, kammerverk, einleikskonserta, barnaóperur, kammeróperu, raf- og tölvutónlist ásamt fjölda kórverka og sálmalaga.
Þorkell nam píanóleik við Tónlistarskólann í Reykjavík og fór síðan til framhaldsnáms í Bandaríkjunum þar sem tónsmíðar urðu hans aðalnámsgrein. Þorkell stundaði nám við tónlistardeildir Hameline-háskólans í Minnesota og Illinois-háskóla. Auk þess sótti hann námskeið í tónsmíðum í Darmstadt í Þýskalandi og Nice í Frakklandi.
Þorkell kom margoft fram sem píanóleikari og var mikilsvirtur kennari, tónlistargagnrýnandi og dagskrárgerðarmaður á Ríkisútvarpinu um árabil. Þorkell var einnig ötull í félagsstörfum; var formaður Tónskáldafélags Íslands til margra ára, formaður Musica Nova 1964-67 og forseti Bandalags íslenskra listamanna 1982-86. Árið 1968 stofnaði hann Íslenska tónverkamiðstöð ásamt fleiri tónskáldum og var stjórnarformaður frá stofnun hennar til ársins 1981. Þorkell sat í stjórn STEFs um árabil og var einnig framkvæmdastjóri og stjórnarmaður Listahátíðar í Reykjavík um skeið. Þorkell var sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við Hameline-háskólann árið 1999 og var meðlimur Konunglegu sænsku akademíunnar.
Ævistarf og verkasafn Þorkels er mikilvægur hluti af tónlistarsögu og menningararfi Íslendinga og eiga verk hans meðal annars tvímælalaust þátt í að vekja athygli á því sem Íslendingar hafa fram að færa á heimssviði tónlistar.
Styttri útgáfa fyrir efnisskrár:
Þorkell Sigurbjörnsson (1938–2013) er eitt af höfuðtónskáldum Íslands. Verk hans telja vel á fjórða hundraðið og hafa mörg þeirra verið hljóðrituð og gefin út. Verkasafn Þorkels er afar fjölbreytt en hann samdi hljómsveitarverk, kammerverk, einleikskonserta, barnaóperur, kammeróperu, raf- og tölvutónlist ásamt fjölda kórverka og sálmalaga.
Þorkell kom margoft fram sem píanóleikari og var mikilsvirtur kennari, tónlistargagnrýnandi og dagskrárgerðarmaður á Ríkisútvarpinu um árabil. Hann var ötull í félagsstörfum; var meðal annars formaður Tónskáldafélags Íslands um árabil, formaður Musica Nova 1964-67 og forseti Bandalags íslenskra listamanna 1982 - 86. Hann var einn stofnenda Íslenskrar tónverkamiðstöðvar og var stjórnarformaður frá stofnun hennar árið 1968 til ársins 1981. Þorkell sat í stjórn STEFs um árabil og var einnig framkvæmdastjóri og stjórnarmaður Listahátíðar í Reykjavík um skeið.
Ævistarf og verkasafn Þorkels er mikilvægur hluti af tónlistarsögu og menningararfi Íslendinga og eiga verk hans meðal annars tvímælalaust þátt í að vekja athygli á því sem Íslendingar hafa fram að færa á heimssviði tónlistar.